Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
  • Handrit
  • Myndir
    • Myndir af handritum
    • Myndir af apógröfum
  • Handritin til barnanna
  • Helgafell
  • Meira
    • Kennsluefni >
      • Sýnisbók íslenskrar skriftar
    • ​​Iceland Legal Manuscripts Research Network
    • Orð og tunga >
      • Orð og tunga 6
      • Orð og tunga 7
      • Orð og tunga 11
      • Orð og tunga 12
      • Orð og tunga 13

Handritin til barnanna


​Handritin til barnanna er miðlunarverkefni sem þróað hefur verið á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Tilefnið er að 21. apríl 2021 verður liðin hálf öld frá því að fyrstu handritin komu heim frá Danmörku eftir áratugalangar samningaviðræður þjóðanna.
​
Verkefnið er miðað við miðstig grunnskóla og markmið þess er að hvetja börn til sköpunar og koma hugmyndum sínum á framfæri við umheiminn.


​Tímarammi verkefnisins er frá hausti 2020 til vors 2021 og á þeim tíma eru þetta helstu vörðurnar:
​Haust 2020
  1. Skólar fá kynningarbréf með tölvupósti.
  2. Skólar fá dagatal sent með Póstinum. Hvatt er til þess að veggspjaldið verði hengt upp í almenningsrými í skólanum.
  3. Kennarar sækja ítarefni með dagatalinu undir flipanum Dagatal með handritamyndum hér að neðan. 
  4. Kennarar sækja rafræna kennslustund um handritaarfinn og mikilvirkasta handritasafnara Íslandssögunnar Árna Magnússon undir flipanum Rafræn kennslustund hér að neðan.
  5. Kennarar láta sér líka við fésbókarsíðu verkefnisins og fylgjast með þróuninni hér.
  6. Kennarar nýta sér heimasíðuna krakkar.arnastofnun.is.
  7. 50−60 grunnskólar (sem valdir voru fyrir fram og fengið hafa bréf þess efnis) í öllum landsfjórðungum fá heimsókn frá ungum fræðurum á vegum Árnastofnunar, þeim Snorra Mássyni og Jakobi Birgissyni. Sjá dagskrá hér að neðan. 
  8. Árnastofnun skýtur upp kollinum í menningarhúsum í öllum landsfjórðungum. Þar verður hægt að kynna sér handritamenninguna og tungumálið út frá ýmsum hliðum.
​​Vor 2021
  1. Í upphafi misseris óskum við eftir því að kennarar hvetji og aðstoði nemendur við að búa til handrit. Það má vera hvernig sem er en þarf að vera handunnið. Dæmi um handrit sem má skila inn eru undir flipanum Handritasamkeppni hér að neðan.  
  2. Verðlaunahátíð verður haldin 21. apríl 2021. Framúrskarandi ungmennahandrit fá viðurkenningu. Fögnuður í tilefni heimkomu handritanna verður innan og utandyra við Hörpu í Reykjavík. Um svipað leyti kemur út ný barnabók um örlagasögu eins merkasta handrits okkar, Möðruvallabókar. Höfundur hennar er Arndís Þórarinsdóttir.
  3. Byrjun júní 2021: Ungmennahandritið 2021 verður valið á Sögum – verðlaunahátíð barnanna.
Dagatal með handritamyndum
Rafrænar kennslustundir
​
Dagskrá verkefnis
​
Efni frá RÚV
​
Handritasamkeppni
​
Eitt og annað
​
Dagatal með handritamyndum

Handritadagatal – ítarefni


Kennarar eru hvattir til að nýta sér frekari upplýsingar um handrit/efni hvers mánaðar fyrir sig. Tilvalið er að fletta handritunum rafrænt á handrit.is eða hér á þessu vefsetri.
Skoða jafnvel vefsíðuna  krakkar.arnastofnun.is (sem er lauslega byggð á vefnum handritinheima.is) 
og reyna að ímynda sér hvernig lífið var á þeim tíma þegar handritin voru skrifuð. Vert er að muna að mannsandi er í hverju handriti!
am_handritin_til_barnanna_dagatal.pdf
File Size: 20920 kb
File Type: pdf
Download File


Ágúst: AM 122 a fol.

Handritið var skrifað á árabilinu 1350–1370. Í handritinu er Sturlunga saga. Þar er m.a. greint frá Örlygsstaðabardaga, fjölmennustu orrustu sem háð hefur verið á Íslandi, nánar til tekið í Skagafirði en þar börðust um 3000 manns. Sturla Þórðarson sagnaritari tók þátt í bardaganum með frændum sínum Sturlungum og skrifaði um hann í Sturlunga sögu.
Gagnvirk sýning um Sturlungaöld og þar með Örlygsstaðabardaga er í Sögusetrinu 1238 við Aðalgötu á Sauðárkróki. Nánari upplýsingar um handritið AM 122 a fol. er að finna á handrit.is.

September: AM 396 4to

Handritið var skrifað einhvern tíma á árunum 1350–1400. Í handritinu er Guðmundar saga biskups. Þar er sagt frá Guðmundi góða Arasyni (1161–1237) sem var biskup á Hólum í Hjaltadal 1203–1237. Hann hafði átt í deilum við skagfirska höfðingjann Kolbein Tumason (um 1171–1208) og bannfært hann árið 1206. Deilurnar snerust um fé sem Kolbeinn taldi sig eiga inni hjá presti einum en Guðmundur hélt hlífiskildi yfir guðsmanninum. Deilurnar náðu hámarki í Víðinesbardaga 1208 þar sem Kolbeinn lést en líf biskupsins varð þó enginn dans á rósum eftir það eins og saga hans greinir frá. Guðmundur góði Arason biskup lést á Hólum í Hjaltadal 1237 eftir að hafa flakkað um landið gamall og blindur um árabil.
​Nánari upplýsingar um handritið má finna hér. Sálminn má heyra hér í flutningi Árstíða (óvænt uppákoma á lestarstöð í þýskumælandi landi).

Október: Kaupmannahöfn – bruninn mikli 

Miðvikudagskvöldið 20. október 1728 kviknaði eldur í Kaupmannahöfn sem logaði samfleytt í þrjá daga. Eldurinn eyddi um fjórðungi borgarinnar og á meðal þeirra húsa sem urðu eldinum að bráð var heimili Árna Magnússonar og Mette konu hans við Stóra Kanúkastræti og háskólabókasafnið á loftinu í Þrenningarkirkjunni. Á báðum þessum stöðum voru geymd verðmæt handrit. Því miður kom eldurinn Árna og samstarfsmönnum hans á óvart og því brugðust þeir seint við að bjarga handritunum. Þó er talið að flestar skinnbækur hans, mikið af pappírshandritum og öðrum gögnum hafi bjargast. Nánar um brunann hér.

Nóvember: AM 147 4to

Myndin af manninum í bátnum er úr Jónsbók sem er lögbók. Megnið af handritinu var skrifað um 1525–1550 en hluti þess var skrifaður um 1600 á skafin blöð úr sagnahandriti frá lokum 15. aldar. Ari fróði Þorgilsson var íslenskur rithöfundur og fræðimaður. Hann mun hafa sett saman Íslendingabók og líklega átt þátt í gerð Landnámu sem eru elstu heimildir um landnám og byggð Íslands. Þegar Ari var sjö ára fór hann í fóstur til Halls Þórarinssonar hins milda í Haukadal og var hjá honum næstu 14 árin. 
Nánari upplýsingar um handritið má finna hér.

Desember: AM 135 4to

Myndin af Þorláki helga Þórhallssyni biskupi (f. 1133 – d. 23. desember 1193) er úr lögbók. Á myndinni er hann með bagal, sem er biskupsstafur. Þorláksmessa, 23. desember, er nefnd eftir honum og hefð er fyrir skötuáti þann dag. 
Lögbókin var skrifuð að mestu um 1350 en ýmsu efni var bætt við hana fram á 16. öld. Árið 1984 útnefndi páfastóll Þorlák Þórhallsson verndardýrling Íslands. Þorlákur varð biskup í Skálholti 1178 og var tekinn í tölu helgra manna á Alþingi árið 1198. Þorlákur fæddist á Hlíðarenda í Fljótshlíð og er talinn hafa alist upp við fremur lítil efni. Honum hefur verið lýst svo í Þorlákssögu hinni yngri: „Heilagur Þorlákur biskup var meðalmaður að vexti, svartjarpur á hárs lit, hrokkinhærður, réttnefjaður, fagureygður og nokkuð opineygður, fölleitur og ljósleitur, hörundljós og hentur vel og hendur hvítar, þýður og þekkilegur, grandlegur og auðveldlegur, léttur á sér og jafnan holdlítill og nokkuð herðilútur.“
Nánari upplýsingar um handritið er að finna hér og hægt er að skoða myndir af því hér.

Janúar: Mynd af Árna Magnússyni sem fæddist á bænum Kvennabrekku

Árni Magnússon (1663–1730) var sérstakur karl sem hafði gríðarlegan áhuga á íslenskum skinnhandritum á því tímaskeiði þegar sumir notuðu þau sem bókband, fatasnið, skóleður og mjölsigti svo fátt eitt sé nefnt. Vegna þessa áhuga bjargaði Árni ómetanlegum verðmætum fyrir íslensku þjóðina.
Árni varð heltekinn af handritunum þegar hann var um tvítugt og frá og með þeim tíma fór hann að safna þeim af miklu kappi. Hann leitaði þeirra um allt land, þráspurði um alls konar handrit hjá fjölbreyttum hópi fólks, og að lokum var hann með gríðarstórt safn af handritum í Kaupmannahöfn.
Handritin eru mestu verðmæti íslensku þjóðarinnar og núna eru þau geymd í rammlæstu og eldvörðu rými í Árnagarði í Reykjavík, sem er kenndur við Árna. Árnastofnun er þar til húsa og hún ber ábyrgð á handritunum ásamt því að hlúa að og efla íslenska tungu.

Febrúar: AM 429 12mo

Handritið er talið skrifað á Íslandi um árið 1500. Það geymir m.a. sögur af kvendýrlingunum Margréti, Katrínu, Spes og Barböru. Handritið er kallað Kirkjubæjarbók en talið er að það hafi verið skrifað í klaustrinu í Kirkjubæ, en þar er nú þéttbýlið Kirkjubæjarklaustur. Vitað er að á 17. öld var það í eigu konu að nafni Guðrún þar sem á spássíu stendur skrifað: „Þetta er bók Guðrúnar að leika sér að því hún rifnar ei þó óstillt sé með farið“. 
Einnig má benda á að myndin á dagatalinu úr Kirkjubæjarbók sýnir konu með bók, sem tekur af allan vafa um bókelsku kvenna og fróðleiksfýsn fyrr á öldum. Nánar um handritið hér.

Mars: AM 347 fol.

Handritið er lögbók sem talin er skrifuð um miðja 14. öld. Í handritinu er að finna ýmsa forna lagatexta, s.s. Grágás, Jónsbók og Járnsíðu. Árni Magnússon fékk bókina frá Birni Jónssyni að Staðarfelli árið 1685, þá aðeins tuttugu og tveggja ára. Um þetta leyti var Árni að eignast sín fyrstu handrit sem lögðu grunninn að ævistarfi hans. 
Þess má geta að um tíu prósent laga í Jónsbók eru enn í gildi í íslenskum lögum nútímans. Nánar má lesa um handritið hér.

Apríl: GKS 2365 4to og GKS 1005 fol.

Dýrmætustu handrit sem Íslendingar varðveita eru Konungsbók eddukvæða og Flateyjarbók. Ákveðið var að setja punktinn á Íslandskortið þar sem Þingeyrar eru, en vísbendingar gefa til kynna að bæði handritin hafi verið skrifuð í munkaklaustrinu á Þingeyrum sem var stofnsett um 1133. Handritaskrif fóru að miklu leyti fram í klaustrum og var það erfitt starf.
Nánar má lesa um Konungsbók eddukvæða hér og Flateyjarbók hér. Handritunum má síðan fletta hér og hér.

Maí: líkneski af Ólöfu ríku úr Skarðskirkju

Skarð á Skarðsströnd er bær og kirkjustaður í Dalasýslu og var talin besta jörð við Breiðafjörð. Frægust þeirra sem búið hafa á Skarði í gegnum tíðina eru Ólöf ríka Loftsdóttir og maður hennar Björn Þorleifsson hirðstjóri. Þau voru á sinni tíð auðugustu hjón á Íslandi. Ólöf ríka dó 1479 en sagan segir að við dauða hennar hafi skollið á mikið óveður, nefnt Ólafarbylur.
Skarðsbók Jónsbókar (AM 350 fol.) og Skarðsbók postulasagna (SÁM 1 fol.) eru tvær frægar skinnbækur kenndar við bæinn Skarð. 
Sjá nánar um Skarðsbók Jónsbókar hér og Skarðsbók postulasagna hér. Skarðsbók postulasagna má einnig fletta hér og skoða stakar myndir hér.

Júní: GKS 1812 4to

Allir í 6. bekk kannast við oddatölur en miðaldatexti sem kallast Odda tala er eitthvert merkasta framlag Íslendinga á miðöldum til raunvísindanna. Talan er eignuð norðlenskum vinnumanni sem kallaðist Stjörnu-Oddi. Talið er að Oddi hafi verið Helgason og hafi verið uppi á fyrri hluta 12. aldar. Stjörnu-Oddi mun hafa verið heimilisfastur um hríð að Múla í Aðaldal og því höfum við sett rauða punktinn þar. Um Odda er sagt í Stjörnu-Odda draumi (sem er einn af Íslendingaþáttum) að hann hafi verið „rímkænn maður“ en þó hvorki „skáld né kvæðinn“.
Odda tölu er að finna í handritinu GKS 1812 4to og er textinn í þremur köflum. Sá fyrsti fjallar m.a. um hvenær sólstöður verða á sumri og vetri.
Nánar má lesa um Stjörnu-Odda hér. Nánari upplýsingar um handritið eru hér.

Júlí: AM 431 12mo

Margrétar saga er til í mörgum handritum og oftast eru þau í smáu broti. Því var lengi trúað að það gæti gert konum auðveldara að fæða ef handrit að Margrétar sögu væri á heimilinu. Hugsanlegt er að hin smáu handrit hafi verið bundin við læri kvenna í barnsnauð í þeirri trú að það hjálpaði til við fæðinguna. Handritinu má fletta hér og skoða stakar myndir af því hér.
Á Skriðuklaustri er til sýnis endurgerð af einu af handritum Margrétar sögu (AM 433 12mo). Sjá nánar hér og hér. 
Rafrænar kennslustundir
​

​Hér er að finna kennsluleiðbeiningar, glærukynningu og verkefni fyrir nemendur um Árna Magnússon og íslensku skinnhandritin.
Efnið er samið í tengslum við Handritin til barnanna, ​sem er verkefni á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
​Vel fer á því ef unnt er að kenna þetta efni í aðdraganda þess að fræðarar frá Árnastofnun koma í heimsókn í skólann.

handritin_okkar_fjarsjodurframidoldum.ppsx
File Size: 21042 kb
File Type: ppsx
Download File

handritinokkar_kennsluleidbeiningar.pdf
File Size: 268 kb
File Type: pdf
Download File

handritinokkar_verkefnii.pdf
File Size: 408 kb
File Type: pdf
Download File

Dagskrá verkefnis
​
Efni frá RÚV
​

​​Í samstarfi við RÚV er boðið upp á að skoða efni sem tengist handritunum í Spilaranum.
​Efnið hentar kennurum til að auka við þekkingu sína á heimi handritanna og ævistarfi Árna Magnússonar.
Handritasamkeppni
​

Þegar nákvæmlega 50 ár verða liðin frá heimkomu fyrstu handritanna, 21. apríl 2021, verður haldin hátíðarsamkoma þar sem handgerð handrit eftir ungmenni verða í brennidepli. Af þeim handritum sem hljóta viðurkenningu síðasta vetrardag verður eitt útnefnt Ungdómshandritið 2021. Hvert það verður kemur í ljós á Sögum – verðlaunahátíð barnanna í byrjun júní 2021.
​Hér er hægt að skoða sýnishorn handrita sem veitt geta innblástur þeim ungu listamönnum sem spreyta sig á handritagerð.
Skoða sýnishorn

  • Frestur til að senda inn handrit er til 20. mars 2021. Dómnefnd fer þá yfir innsend handrit.
  • Tilkynnt verður um hvaða handrit hljóta viðurkenningu á hátíðarviðburði í Hörpu 21. apríl 2021.
  • Ungdómshandritið 2021 verður valið á Sögum – verðlaunahátíð barnanna sem fer fram í byrjun júní 2021.
  • Hér má senda inn sitt handrit.
Eitt og annað
​

Senda verkefnisstjóra​ tölvupóst
Facebook síða verkefnisins
Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði, Þróunarsjóði námsgagna, Landsvirkjun, Nýsköpunarsjóði námsmanna og er unnið í samstarfi við fjölmarga aðila, t.d. Barnamenningarhátíð í Reykjavík, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Reykjavík-Bókmenntaborg, RÚV ohf., Sögur – verðlaunahátíð barnanna, Arndísi Þórarinsdóttur rithöfund, List fyrir alla, Menningarmiðstöðina Edinborg á Ísafirði, Sláturhúsið á Egilsstöðum, Listasafn Árnesinga í Hveragerði, Menningarhúsið Berg á Dalvík og fleiri.
Góðan dag skólafólk.

Þetta haust vildum við hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tengja okkur við skólafólk um allt land vegna þess að á næsta ári 21. apríl 2021, verða liðin 50 ár frá því að fyrstu miðaldahandritunum var skilað frá Danmörku til Íslands.

Þjóðirnar höfðu um áratugaskeið átt í viðræðum þar sem markmið íslensku fulltrúanna var að fá þessar ómetanlegu gersemar til landsins undir kjörorðinu „handritin heim“. Að lokum tókst að fá um helming handritasafns Árna Magnússonar til Íslands auk handrita úr Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn. Árnastofnun hefur síðan varðveitt, rannsakað og miðlað menningararfinum til fræðimanna og almennings.

Handritin til barnanna er verkefni sem hefur verið þróað við stofnunina til að kveikja áhuga nemenda á miðstigi grunnskólanna á þessum merku gripum og innihaldi þeirra. Verkefnið teygir anga sína víða eða eins og sóttvarnalög leyfa.
Við bjóðum grunnskólakennurum að nýta sér það margvíslega efni sem tengist verkefninu á skólaárinu 2020−2021 og styðja börnin eftir mætti til að útbúa sitt eigið handrit og taka þátt í samkeppni um Ungdómshandritið 2021. Hér er listi yfir það sem verður í boði:
  • Dagatal þar sem handritin og fleiri sögulegir viðburðir eru kynntir fyrir börnum. Veggspjaldið kemur með Póstinum og hvatt er til þess að það verði hengt upp í almenningsrými skólans. Dagatalið og ítarefni með því má finna hér: https://hirslan.arnastofnun.is/handritin-til-barnanna.html
  • Rafræn kennslustund með kennsluleiðbeiningum. Kristjana Friðbjörnsdóttir samdi kennslustundina sem finna má hér: https://hirslan.arnastofnun.is/handritin-til-barnanna.html
  • Sjónvarpsefni sem byggir upp þekkingu kennara á Árna Magnússyni, handritaarfinum og handritamálinu: https://www.menntaruv.is/6til12ara/renningur/handritin-til- barnanna
  • Nýr vefur um handritaarfinn verður opnaður 21. september. Vefurinn er sérstaklega sniðin að börnum og byggður á http://www.handritinheima.is
  • Heimsókn ungra fræðara á vegum Árnastofnunar til 50−60 skóla um land allt á skólaárinu. Framhald gæti orðið á þeim heimsóknum á næsta skólaári ef áhugi er fyrir hendi og aðstæður í samfélaginu leyfa.

Mælt er með því að kennarar sem fá heimsókn frá fræðurunum hafi nýtt sér rafræna kennsluefnið áður en heimsóknin á sér stað. Með fræðurum gefst börnunum kostur á að prófa að skrifa eigin skinnhandrit með sams konar áhöldum og skrifarar miðalda höfðu undir höndum.
  • Kennarar eru hvattir til að láta sér líka við fésbókarsíðu verkefnisins Handritin til barnanna og fylgjast með gangi mála eftir því sem verkefninu vindur fram: https://www.facebook.com/Handritin-til-barnanna- 106227464538665/?view_public_for=106227464538665
  • Handritasamkeppni sem nær hápunkti 21. apríl 2021 þegar í ljós kemur hvaða handrit eru tilnefnd sem ungmennahandrit ársins 2021. Samkeppnin er sjálfstæð en þó í samstarfi við Sögur – verðlaunahátíð barnanna þar sem veitt verða sérstök verðlaun fyrir handgert handrit. Nánari upplýsingar er að finna á vefnum https://hirslan.arnastofnun.is/handritin-til-barnanna.html

Á vef stofnunarinnar arnastofnun.is er svo greið leið að öllum upplýsingum um verkefnið.

Með bestu kveðju og von um gott samstarf,
Picture
Eva María Jónsdóttir
Verkefnastjóri Handritin til barnanna
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum Árnagarði við Suðurgötu
102 Reykjavík
Sími: 525-4030/864-2881
netfang: evamj@hi.is
Picture
©2021 Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
  • Handrit
  • Myndir
    • Myndir af handritum
    • Myndir af apógröfum
  • Handritin til barnanna
  • Helgafell
  • Meira
    • Kennsluefni >
      • Sýnisbók íslenskrar skriftar
    • ​​Iceland Legal Manuscripts Research Network
    • Orð og tunga >
      • Orð og tunga 6
      • Orð og tunga 7
      • Orð og tunga 11
      • Orð og tunga 12
      • Orð og tunga 13