Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
  • Handrit
  • Myndir
    • Myndir af handritum
    • Myndir af apógröfum
  • Handritin til barnanna
  • Skinnblöð frá Þjóðminjasafni
  • Sýnisbók
  • Helgafell
  • ​​Iceland Legal Manuscripts Research Network
  • Meira
    • Orð og tunga >
      • Orð og tunga 6
      • Orð og tunga 7
      • Orð og tunga 11
      • Orð og tunga 12
      • Orð og tunga 13

Konungsbók eddukvæða


Konungsbók eddukvæða, GKS 2365 4to, er elsta og merkasta safn eddukvæða sem varðveist hefur og frægust allra íslenskra bóka. Hún er talin skrifuð um 1270 og er nú 45 blöð. Um uppruna hennar og feril að öðru leyti er ekkert vitað fyrr en Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup letraði á hana einkennisstafi sína og ártalið 1643. Þá voru týnd úr henni 8 blöð eða eitt kver. Niðurlag Sigurdrífumála, sem hafa endað fremst í þessu glataða kveri, er varðveitt í uppskriftum, en annars eru kvæðin sem staðið hafa á þessum blöðum nú hvergi til.

Kvæðin í bókinni skiptast í tvo aðalflokka. Í fyrra hluta bókarinnar eru kvæði um heiðin goð, en í síðara hlutanum kvæði um fornar germanskar hetjur. Fremst er skipað Völuspá, yfirlitskvæði sem birtir í leiftursýnum heimsmynd og heimssögu ásatrúar. Um svipað efni fjalla Vafþrúðnismál og Grímnismál sem koma litlu síðar í handritinu. Milli Völuspár og Vafþrúðnismála eru Hávamál sem lögð eru Óðni í munn, siðakvæði og heilræða. Á eftir Grímnismálum koma önnur goðakvæði sem öll fjalla um einstaka viðburði í lífi goðanna. Flest eða öll þessi goðakvæði munu hafa verið ort í öndverðu á síðustu öldum heiðni, á Íslandi eða öðrum byggðum norrænna manna, en hafa lifað og mótast á vörum fólks eftir kristnitöku.

Hetjukvæðunum má skipta í flokka eftir efni og aðalpersónum. Fyrst er kveðskapur um Helga Hundingsbana og nafna hans Hjörvarðsson, þá um Sigurð Fáfnisbana, síðan koma kvæði um Atla Húnakonung og Gjúkunga, og loks kvæði um Jörmunrek konung Gota. Kvæðin eru misgömul að uppruna og endurspegla ólíkt umhverfi í stíl og efnistökum. Milli goða- og hetjukvæðanna í handritinu standa Völundarkviða og Alvíssmál og fer vel á því þar eð persónur þeirra eru á milli tveggja heima, hvorki goð né menn. Sum kvæðanna í Konungsbók eru varðveitt í fleiri handritum, en flest eru hvergi til nema þar. Í öðrum yngri handritum eru líka einstöku kvæði sem svipar til kvæðanna í Konungsbók, og er venja að telja þau einnig til eddukvæða. Þar á meðal eru Baldursdraumar, Hyndluljóð, Völuspá hin skamma, Gróttasöngur, Rígsþula og Hlöðskviða.

Brynjólfur biskup sendi bókina Friðriki þriðja Danakonungi, ásamt fleiri merkum skinnbókum, árið 1662. Hún var síðan varðveitt í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn. Hún kom aftur heim til Íslands 21. apríl 1971.​

©2021 Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
  • Handrit
  • Myndir
    • Myndir af handritum
    • Myndir af apógröfum
  • Handritin til barnanna
  • Skinnblöð frá Þjóðminjasafni
  • Sýnisbók
  • Helgafell
  • ​​Iceland Legal Manuscripts Research Network
  • Meira
    • Orð og tunga >
      • Orð og tunga 6
      • Orð og tunga 7
      • Orð og tunga 11
      • Orð og tunga 12
      • Orð og tunga 13