Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
  • Handrit
  • Myndir
    • Myndir af handritum
    • Myndir af apógröfum
  • Handritin til barnanna
  • Skinnblöð frá Þjóðminjasafni
  • Sýnisbók
  • Helgafell
  • ​​Iceland Legal Manuscripts Research Network
  • Meira
    • Orð og tunga >
      • Orð og tunga 6
      • Orð og tunga 7
      • Orð og tunga 11
      • Orð og tunga 12
      • Orð og tunga 13

Möðruvallabók


AM 132 fol. eða Möðruvallabók er sagnahandrit sem hefur að geyma ellefu  Íslendingasögur. Það var skrifað á 14. öld, að öllum líkindum á árunum 1330–1370. Möðruvallabók er stærsta varðveitta miðaldasafn Íslendingasagna og í mörgum tilvikum eina miðaldahandritið sem geymir þær heilar. Sögurnar eru í þessari röð: Njáls saga, Egils saga Skallagrímssonar, Finnboga saga ramma, Bandamanna saga, Kormáks saga, Víga-Glúms saga, Droplaugarsona saga, Ölkofra saga, Hallfreðar saga vandræðaskálds, Laxdæla saga og Fóstbræðra saga. 

Möðruvallabók er þykk og efnismikil í stóru broti og greinilegt að ekkert hefur verið til sparað við gerð hennar. Hún er núna 200 blöð á bókfelli, bundin inn í tréspjöld. Textaflöturinn er tvídálka og spássíur eru stórar. Eikarspjöldin sem bókin er bundin í eru aðeins of lítil fyrir handritið og talið er líklegt að þau séu yngri en handritið sjálft. Sterkar vísbendingar eru um að kverin í handritinu hafi ekki verið bundin inn í spjöldin fyrr en snemma á 20. öld og að þau hafi legið laus í stafla án spjalda um langa hríð. Af þeim sökum var hætta á að blöð glötuðust og röð kvera ruglaðist. Upphaflega hefur bókin sennilega verið að minnsta kosti 27 kver eða 214 blöð.

Sögurnar eru í landfræðilegri röð, þ.e. fyrsta sagan, Njála gerist einkum á Suðurlandi og síðan berst leikurinn vestur og norður um landið og allt austur á firði en þó á þetta ekki við um fjórar síðustu sögurnar og er því hugsanlegt að niðurröðun sagnanna sé tilviljun. Það er alla vega ljóst að ætlunin var að hafa fleiri sögur í handritinu. Sérstaklega áhugavert er að á spássíu á bl. 61v, þar sem Njáls sögu lýkur, stendur að hér eigi að bæta við Gauks sögu Trandilssonar en sú saga hefur ekki varðveist.

Handritið er að mestu leyti skrifað af einum manni, vönum skrifara, en önnur hönd er á vísum í Egils sögu og enn önnur á fyrirsögnum. Upphafsstafir eru víða skreyttir og í lit og ef til vill með enn annarri hendi. Gera má ráð fyrir að skrifararnir hafi verið samtímamenn og starfað á Norðurlandi. Rithönd aðalskrifarans er að finna á einum sex öðrum handritum og handritabrotum sem fjalla um kristileg efni og eru að öllum líkindum skrifuð á Norðurlandi, helst í Eyjafjarðarsýslu. Svo mikið er víst að þar var Möðruvallabók niðurkomin á 17. öld því að 3. maí 1628 skrifar Magnús Björnsson (1595–1662) nafn sitt á hana „í stóru baðstofunni á Möðruvöllum“ (bl. 18v). Er handritið þess vegna kallað Möðruvallabók. Magnús var talinn með auðugustu mönnum landsins. Hann bjó á Munkaþverá í Eyjafirði og varð síðar lögmaður. 

Björn sonur Magnúsar tók Möðruvallabók með sér til Kaupmannahafnar árið 1684 og gaf hana Thomasi Bartholin, fornfræðingi konungs og hollvini Árna Magnússonar. Tilgangurinn mun hafa verið sá að liðka fyrir því að Björn fengi aftur sýslumannsembætti sem dæmt hafði verið af honum. Ef það er rétt, bar ferðin tilætlaðan árangur. Bartholin lést árið 1690 og eftir það komst Möðruvallabók í eigu Árna Magnússonar.

©2021 Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
  • Handrit
  • Myndir
    • Myndir af handritum
    • Myndir af apógröfum
  • Handritin til barnanna
  • Skinnblöð frá Þjóðminjasafni
  • Sýnisbók
  • Helgafell
  • ​​Iceland Legal Manuscripts Research Network
  • Meira
    • Orð og tunga >
      • Orð og tunga 6
      • Orð og tunga 7
      • Orð og tunga 11
      • Orð og tunga 12
      • Orð og tunga 13